Ég var að spila á sýningu á Kabarett í Íslensku óperunni fyrir næstum tveimur árum þegar ég fékk frábæra hugmynd.Að ljúga upp lögum á nýja Milljónamæringaplötu. Sagði Sigtryggi frá þessu. Hann spilaði á trommur í Kabarett. Honum leist ekki illa á. Plottið var svona: Ofan í kassa uppi á háalofti (eða í kjallaranum, maður ræður) hjá Steingrími trommara finnast nótur og textar af lögum. Allt á íslensku. Í gömlum stíl. Lög sem minna á Kaupakonuna hans Gísla í Gröf, Hæ mambó og þá sálma alla. Lög sem bera nöfn eins og Merenge-Maja, Amanda og þar fram eftir götunum.
Hvaðan kemur kassinn? Steingrími dettur helst í hug að hann hafi verið að geyma hann fyrir pabba sinn, papa jazz, en sá kannast ekki við gripinn, það er helst að pabbinn hafi verið að geyma kassann fyrir þriðja mann. Kannski Hauk Morthens eða Alfreð Clausen. Og lögin gætu sem best verið eftir Hauk. Þess vegna. Fín lög.
Milljónamæringarnir ákveða að taka upp lögin og gefa út plötu með þeim. Platan heitir Höfundur ókunnur. Gerð er heimildarmynd um kassann, tekin viðtöl við Jónatan Garðars, papa jazz og fleiri, allir velta því fyrir sér hvaðan þessi lög komi. Heimildarmyndin sýnir líka undirbúning tónleika þar sem þessi lög eru spiluð í fyrsta sinn opinberlega. Gríðarleg stemning í kringum þetta allt saman. Þjóðin stendur á öndinni.
Við Sigtryggur settumst niður og hófum að semja þessi lög. Falsa. Til varð Amanda. Á teikniborðinu var líka Tangó fyrir einn. (Sem átti að vera vals). En svo hélt andinn áfram að voma yfir höfði okkar eins og soltinn gammur þannig að við héldum áfram að semja en skildum hugmyndina um að hafa lögin í gömlum stíl eftir, okkur langaði að semja alls konar lög.
Þannig að á endanum vorum við lagðir af stað að gera eðlilega plötu. Ekki plata þjóðina. En eitt lag lifði af helförina. Það var Amanda. Nafnið kom frá Páli Óskari kvöldið sem falshugmyndin fæddist. Eftir Kabarett sýningu var Millagigg á Broadway. Þar opinberaði ég þessa snilldarhugmynd fyrir bandinu. Palli var ánægður með þetta. Kom með nafnið á plötuna: Höfundur ókunnur, og líka fabúleruðum við með nokkur lagaheiti. Þar kom Amanda. Lagið samdi ég síðan daginn eftir. Þetta átti að vera lag samið á fyrri hluta síðustu aldar og átti að vera metnaðarfullt sönglag undir miðevrópskum áhrifum. Dáldið svona eins og Tondeleyó. Við Sigtryggur sömdum svo textann við Sunnubrautina í Kópavogi með útsýni yfir Arnarnesið. Sólin gyllti vog. Svona var ljóðið:
Enginn getur þerrað tárin
Né huggað minn harm
Nei, eftir því sem líða ár
Hann sækir fram
Eg hafði aldrei elskað áður fyrr
Svo yfirmáta heitt
Í anda, Amanda
Þeir segja að tíminn græði sárin
Og sorg vísi á bug
Þeir hljóta að meina þúsund ár
En ekki tug
Þér tókst nú samt að særa hjarta mitt
Ég sit með sáran sting
Að vanda, Amanda
Ekkert fær nú læknað hjarta mitt
þú myrðir mig á ný
án handa, Amanda
Amanda Amanda
Nú sindrar sól á vog, og deyr.
Þetta lag verður á plötunni. Hver fær að syngja það er óráðið. Ég ætla að hitta Ragga Bjarna í hádeginu á morgun og þá skýrast línur.
Kalli
Flokkur: Bloggar | 10.5.2007 | 00:38 (breytt kl. 00:51) | Facebook
Tónlistarspilari
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 798
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.