Það er afar athyglisvert að skoða hvað ég næ að tengja Bítlana mörgum greinum hér inn á Millablogginu. Þetta er eitthvað sem siglir grunnt í undirmeðvitundinni. Bara þessi fyrirsögn. Ég ætlaði alls ekkert að fara að skrifa um Bítlana. Oh, well. Here goes.
Ég held að ég hafi verið að semja lög síðan ég var 6 ára. Þegar ég var kominn í "gaggó" (aldrei kunnað við þetta orð) eignaðist ég félaga í hinum bekknum sem var að grúska í hljómfræði. Þetta var eitthvað sem við gátum talað um allan daginn, í frímínútum og hvar sem er. Ég hefði aldrei náð tökum á þessu fyrirbæri vel nema fyrir þetta, að við gátum gert þetta hluta af hversdeginum okkar. Hljómfræðin er nefnilega tæki til að tala um ákveðin hluta tónlistar. Til að geta tjáð sig um hana án þess að leika tóndæmi. Sparar mikinn tíma. Og síðan þá hef ég samið mikið með þessum tiltekna vini mínum. Við náum vel saman í tónlistinni, við höfum engar stjarnfræðilegar væntingar né þurfum við sérstakt tilefni, stundum koma ekkert sérstök lög en það er þá alltaf tilraunarinnar virði og alltaf gaman.
En yfirleitt hef ég samið lögin mín einn. Stundum hafa textahöfundar samið ljóðin. Oft án þess að ég skipti mér af og stundum heyri ég ekki textann fyrr en platan er komin út. En ef ég er að vinna að plötunni hef ég mikla skoðun á því hvernig textinn á að vera. Og ef ég geri hann ekki sjálfur þá er voðalega fínt að Bragi Valdimar skrifi hann. Hann hefur lengi samið texta fyrir mig og það er mjög þægilegt samstarf. Ég gef honum stutta lýsingu á því hvert mér finnst textinn eiga að fara. T.d: þetta á að vera eins og upp úr skáldsögu hjá Raymond Chandler. (Skuggi, RB og Millarnir) Og svo skjótum við honum á milli þangað til við erum báðir ánægðir. Anna mín hefur líka gert texta fyrir mig og þeir eru náttúrulega frábærir (Paradísarbíóið, Óskar Pétursson; Leiðin til þín, Matti Matt).
Ég var fenginn til að semja tónlist á plötu í samvinnu við annan tónlistarmann, Pétur Ben. Það var spennandi að vera teflt svona saman við einhvern án þess að vita mjög mikið um hann. Ég þekkti hann sem gítarleikara en hafði ekki heyrt tónlist eftir hann. Við náðum vel saman og sömdum allt öðruvísi tónlist en við gerum venjulega, þ.e. hvor í sínu horni. Hann er snillingur.
Þetta er algengt í útlandinu að fólk sé að semja saman. Margir sem eru á publishing samning eru sendir í lagsmíðavinnubúðir af fyrirtækinu sínu til að hitta aðra, prófa að semja eitthvað og sjá hvað kemur. En þessi menning er svo sem ekki fyrir hendi hér. Þess vegna er svo frábært að prófa þetta.
Mér datt þetta í hug vegna þess að tónlistarmaður sem ég þekki var af fyrra bragði að spyrja mig hvort við ættum ekki að semja saman. Ég þurfti ekki að hugsa mig um. Svarið var já.
Sem minnir mig á sögu af Birni Jörundi. Ég nenni ekki að segja hana hér og nú. Kannski er hún ekkert fyndin eða athygllisverð í skrifuðu máli. en pönslænið er "Svarið er nei!" Var að biðja hann um texta við lag eftir mig. Á plötunni hans Jónsa. Skrifaði hann bara sjálfur.
Kalli
Tónlistarspilari
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.