Færsluflokkur: Bloggar
Ég sá í fréttablaðinu í dag smáfrétt um Ted Danson. Tók lítið eftir því um hvað hún fjallaði en rak augun í þá staðhæfingu að á þeim tólf árum sem að Ted túlkaði bareigandann Sam var hann níu sinnum tilnefndur til Grammyverðlauna. Ég vissi að hann gat leikið en ekki að hann væri svo virtur tónlistarmaður. En svo fór ég að spá, ætli Dan, pabbi hans, sé ekki hinn hæfileikaríki Steely Dan ?
Kalli
Bloggar | 10.5.2007 | 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norah er flott. Væri forvitnilegt að sjá hana á tónleikum. Ég sá hana fyrst hjá Jay Leno þar sem hún söng Don't know why. Ég varð svo upprifinn að ég settist við píanóið og samdi alveg eins lag. Sem voru mistök. Því að það var búið að semja það. En Norah er flott.
Íslenskur upptökumaður sem kallar sig Husky Hoskulds fékk Grammy verðlaun fyrir störf sín við fyrstu sólóplötu Noruh. Hann er heldur til vinstri í tónlistarsmekk sínum og vinnur mikið með svölum jaðarmúsiköntum svo og virtum sérvitringum eins og Tom Waits. Hann tók upp Noruh og var ákaflega ánægður með hljóminn. En útgáfufyrirtækinu fannst þetta ekki nógu seljanlegt, sáu fram á að þetta fengi nú ekki nógu mikla spilun á Bylgjunni og létu taka upp megnið af plötunni aftur! Og þá var Husky ekki við stjórnvölinn. Hann hefur sagt að honum þyki þetta grátbroslegt. Eða eiginlega bara grátlegt að fyrstu Grammyverðlaunin sín voru fyrir lélegastu og aumingjalegustu plötu sem hann hefði komið nálægt. Sterkt til orða tekið. En mikið skil ég hann.
Kalli
Norah Jones með tónleika í Laugardalshöll í september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 10.5.2007 | 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Raggi Bjarna er ótrúlegur maður. Hann er 73ja á árinu en hefur kraft á við ég veit ekki hvað. Oft hef ég hitt hann á Millagiggum, ég úrvinda eftir daginn og þarf að spila heilt ball áður en degi lýkur. Ragnar mætir, búinn að vera í hljóðveri hjá Gunna Þórðar að syngja inn á plötu, spila í tveimur afmælum, einu brúðkaupi í Hveradölum og er að fara að syngja ball með Millunum. Og það sér ekki á honum.
Ég held að þetta hafi mikið að gera með lífsviðhorf hans. Það er aldrei neitt mál. Allt svo auðvelt og skemmtilegt. Þegar ég kynntist honum fyrst var ég að stjórna upptökum á síðustu Millaplötu. Þar var Ragnar narraður til að syngja Nirvanalag. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að leyfa honum að heyra Kurt syngja þetta svo að ég gerði mína eigin bossanova útgáfu af laginu til að hann mætti heyra. Honum fannst lagið skrýtið og textinn líka (Kalli, hvernig ber maður fram libito? Líbætó eða...) En hann lét sig bara hafa það. Síðan þá hef ég stundum fengið að vinna með honum í hljóðveri og það er alltaf eins, aldrei neitt mál. Sama hvaða vitleysu ég dreg hann út í.
Ég óska öllum þess að hafa hans elju og viðhorf á hans aldri. Og reyndar á öllum aldri. Raggi er töffari.
Raggi syngur 3 lög á nýju plötunni, Live till I die, Ekki kalla það ást og Amanda (sennilega).
Ég bætti Smells Like Teen Spirit með RB and the Mills inn á Tónsplilarann.
Kalli
Bloggar | 10.5.2007 | 10:05 (breytt kl. 10:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Annars fann ég þessa fínu mynd framan á gamalli smáskífu með kappanum (frá árinu 1802). Þetta er nú agætis nafn á Millaplötu: Expresso Bongo.
Kalli
Cliff hefur skemmt í fjórar aldir! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 10.5.2007 | 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
En ef Björk hefði Einar Bárðar sem umboðsmann þá hefði hún farið beint í fyrsta sæti! Að minnsta kosti samkvæmt fréttatilkynningum frá Concert.
Annars er þetta flott mynd framan á disknum. Hreinir litir og skýr form (svo að maður tali nú eins og doktor í grafískri hönnun (sem ég er augljóslega ekki)). En jafnvel á lítilli mynd nýtur albúmið sín. Þetta minnir dálítið á Andy Warhol og félaga í popart deildinni. Sniðug stelpa, hún Björk.
Kalli
Volta selst mjög vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 10.5.2007 | 07:15 (breytt kl. 07:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Birgir
Dýr og plöntur í útrýmingarhættu sýnd í Leifsstöð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 10.5.2007 | 01:20 (breytt kl. 01:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég var að spila á sýningu á Kabarett í Íslensku óperunni fyrir næstum tveimur árum þegar ég fékk frábæra hugmynd.Að ljúga upp lögum á nýja Milljónamæringaplötu. Sagði Sigtryggi frá þessu. Hann spilaði á trommur í Kabarett. Honum leist ekki illa á. Plottið var svona: Ofan í kassa uppi á háalofti (eða í kjallaranum, maður ræður) hjá Steingrími trommara finnast nótur og textar af lögum. Allt á íslensku. Í gömlum stíl. Lög sem minna á Kaupakonuna hans Gísla í Gröf, Hæ mambó og þá sálma alla. Lög sem bera nöfn eins og Merenge-Maja, Amanda og þar fram eftir götunum.
Hvaðan kemur kassinn? Steingrími dettur helst í hug að hann hafi verið að geyma hann fyrir pabba sinn, papa jazz, en sá kannast ekki við gripinn, það er helst að pabbinn hafi verið að geyma kassann fyrir þriðja mann. Kannski Hauk Morthens eða Alfreð Clausen. Og lögin gætu sem best verið eftir Hauk. Þess vegna. Fín lög.
Milljónamæringarnir ákveða að taka upp lögin og gefa út plötu með þeim. Platan heitir Höfundur ókunnur. Gerð er heimildarmynd um kassann, tekin viðtöl við Jónatan Garðars, papa jazz og fleiri, allir velta því fyrir sér hvaðan þessi lög komi. Heimildarmyndin sýnir líka undirbúning tónleika þar sem þessi lög eru spiluð í fyrsta sinn opinberlega. Gríðarleg stemning í kringum þetta allt saman. Þjóðin stendur á öndinni.
Við Sigtryggur settumst niður og hófum að semja þessi lög. Falsa. Til varð Amanda. Á teikniborðinu var líka Tangó fyrir einn. (Sem átti að vera vals). En svo hélt andinn áfram að voma yfir höfði okkar eins og soltinn gammur þannig að við héldum áfram að semja en skildum hugmyndina um að hafa lögin í gömlum stíl eftir, okkur langaði að semja alls konar lög.
Þannig að á endanum vorum við lagðir af stað að gera eðlilega plötu. Ekki plata þjóðina. En eitt lag lifði af helförina. Það var Amanda. Nafnið kom frá Páli Óskari kvöldið sem falshugmyndin fæddist. Eftir Kabarett sýningu var Millagigg á Broadway. Þar opinberaði ég þessa snilldarhugmynd fyrir bandinu. Palli var ánægður með þetta. Kom með nafnið á plötuna: Höfundur ókunnur, og líka fabúleruðum við með nokkur lagaheiti. Þar kom Amanda. Lagið samdi ég síðan daginn eftir. Þetta átti að vera lag samið á fyrri hluta síðustu aldar og átti að vera metnaðarfullt sönglag undir miðevrópskum áhrifum. Dáldið svona eins og Tondeleyó. Við Sigtryggur sömdum svo textann við Sunnubrautina í Kópavogi með útsýni yfir Arnarnesið. Sólin gyllti vog. Svona var ljóðið:
Enginn getur þerrað tárin
Né huggað minn harm
Nei, eftir því sem líða ár
Hann sækir fram
Eg hafði aldrei elskað áður fyrr
Svo yfirmáta heitt
Í anda, Amanda
Þeir segja að tíminn græði sárin
Og sorg vísi á bug
Þeir hljóta að meina þúsund ár
En ekki tug
Þér tókst nú samt að særa hjarta mitt
Ég sit með sáran sting
Að vanda, Amanda
Ekkert fær nú læknað hjarta mitt
þú myrðir mig á ný
án handa, Amanda
Amanda Amanda
Nú sindrar sól á vog, og deyr.
Þetta lag verður á plötunni. Hver fær að syngja það er óráðið. Ég ætla að hitta Ragga Bjarna í hádeginu á morgun og þá skýrast línur.
Kalli
Bloggar | 10.5.2007 | 00:38 (breytt kl. 00:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Loksins kom að því. Birgir mætti í Snjóhúsið að taka upp Gibson bassann. Við byrjuðum á hinu instumental lagi Viltu mambó, væna, sem er hugsanlega fyrsta lag plötunnar. Ekkert mambó í því lagi, lítið og sætt og agalega funky númer. En hinn upprunalegi E strengur bassans var orðinn svo þreyttur að Birgir þurfti að SKIPTA UM STRENG í hljóðfærinu í fyrsta skipti síðan hann keypti hann. Hann átti nokkra strengi sem fylgdu með bassanum og þar á meðal einn E streng. Þegar hann tók upp pakkann er annar þynnri innan í. Á honum stóð "notað" . Frábært. Varastrengurinn er þá 45 ára gamall notaður strengur! Jæja, hann fór í og upptökur hófust.
Kalli
Bloggar | 9.5.2007 | 20:17 (breytt kl. 23:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrst frumsýning hjá Sigtryggi á nýju stuttmyndinni hans, síðan forkeppni Eurovision og síðan Singapore Sling á Hressó. Er maður klofinn persónuleiki eða hvað.
Kalli
Singapore Sling á leið í hljómleikaferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 9.5.2007 | 17:06 (breytt kl. 17:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég hef minnst á sérstakar upptökuaðferðir og gömul og sjaldgæf hljóðfæri hér á blogginu. Ástæðan fyrir þessum áhuga mínum á því er sú að mér finnst allt vera að renna saman í einn graut í tónlist í dag. Sem er kannski ekki skrítið. Nokkrar ástæður: Þrátt fyrir fjölda útvarps og sjónvarpsstöðva erum við mötuð á einsleitri tónlist. Upptökutæki/forrit og hljóðgjafar ýmiskonar eru á allra höndum en allir með eins, hljóðin sem við heyrum í útvarpinu koma úr samskonar græjum og flestir aðrir eru að nota. Svo er orðið svo auðvelt í dag að laga falska söngvara og taktlausa hljóðfæraleikara. En um leið og það er gert færist einhver fullkomnunarslikja yfir allt saman.
Þess vegna finnst mér ákaflega mikilvægt í dag að reyna að grípa persónuleika hljómsveitar, að ljá hljómfangi því sem átt er við hverju sinni einhverja sérstöðu. Og þar hef ég komist að annarri niðurstöðu: Persónuleikinn felst í ófullkomnun. Við leitumst flest við að vera hrein og bein og slétt og felld og gera eins og okkur er sagt og haga okkur eins og ætlast er til. En það er allt hitt sem gefur okkur sérstöðu og mótar persónu okkar. Allir dyntirnir. Landslag er leiðinlegt ef það er bara slétt eða samhverft. Við viljum fá fjöll, dali, hóla, brotin tré og stöku ský á himni. Maður ímyndar sér að vélmenni sem væri með alla mannasiði, hegðunarreglur og samskiptatækni á hreinu væri sterílt og leiðinlegt. En allir elska 3CPO úr Star Wars eða lífsleiða vélmennið Marvin í Hitchhikers guide to the galaxy. Dyntir.
Þannig að í stað þess að ná fullkominni spilamennsku leitast ég við að ná skemmtilegri spilamennsku. Og nota hljóðfæri sem eru ekki fullkomin heldur hafa persónuleika. Og nú nálgast ég óðfluga þverstæðuna í þessu öllu saman. Fullkomnun er leiðinleg. Og þar af leiðandi ófullkomin.
Kalli
Bloggar | 9.5.2007 | 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar