Af meistaraverkum og mishöppum

MeistaraverkLangt er síðan ég færði til bloggs. Biðst afsökunar. Hefur reyndar enginn kvartað. Kannske að fólk sé almennt fegið. "Jæja, best að fara inn á Millabloggið. Ó, ég vona að þeir séu ekki búnir að skrifa neitt nýtt....úff, gott. Bara gamla færslan með George myndinni."

Hérna megin er búið að taka upp ýmislegt og Bogomil Font hefur sungið tvö lög inn á plötuna. Laddi kemur í dag að syngja. Bogomil heldur áfram á mánudag. Birgir kemur nú á eftir og ætlar að endurgera kontrabassa í Göngum yfir brúna. Það er komið í kúbverska mambóútsetningu og hljómar feikivel þannig. Dáldið svona í anda Buena vista social club.

Ég vona að bloggvinur minn Pálmi verði ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er náttúrulega gert með mikilli virðingu fyrir laginu. Magnús Eiríksson er besti lagahöfundur sem við höfum átt. Og upphaflegi flutningurinn er frábær. Hann má heyra á síðu Pálma Gunnarssonar. Lagið er af plötunni Í gegnum tíðina. Önnur plata Mannakorna. Hún er safn frábærra laga. Smellir á borð við Reyndu aftur, Braggablús og Garún. En einhvern veginn eru öll lögin frábær. Ræfilskvæði, Fyrir utan gluggann þinn, Ef þú ert mér hjá..Frábært verð að fara að tengja plötuspilarann og blása rykið af plötunum. Flott umslag líka á Í gegnum tíðina. Klippilistaverk af Esjunni, tunglinu, geimförum, nunnum og ýmsu fleiru. Og umslagið far tvöfalt, hægt að opna það eins og bók og myndin náði yfir bakhliðina líka þannig að þetta var stór og flott mynd. Þetta er ekki hægt lengur. Geisladiskarnir eru svo litlir að þeir kalla á öðruvísi nálgun.

Við Milljónamæringar erum ennþá að spá í umslag. Einhver hreyfing þar á. Nokkrar hugmyndir í sigtinu.  Og nafnið er ekki alveg komið. Mér finnst nafnskrípið Nálgast nær vera skemmtilegt. Ég er fyrir heimskuleg nöfn. Ég var einu sinni í hljómsveit sem að gaf út plötuna Konungar háuloftanna. Reyndar barðist ég fyrir því að hún myndi heita Fata morgnanna. Alls kyns vitleysa kom til greina en Konungar háuloftanna varð ofan á. Enda stendur hún undir nafni. Upplagið af henni trónir á háuloftunum og ríkir þar en dæmir hvorki lifendur né dauða. 

Amen 

Kalli 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég saknaði en þagði í hljóði...

ásdís Paulsdóttir (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 01:42

2 Smámynd: Jens Guð

  Þegar ég hef hlustað á Göngum yfir brúna á bloggsíðu Pálma er lagið í annarri útsetningu en á Í gegnum tíðina.  Á þeirri plötu er lagið hart og rokkað.  Á síðu Pálma er það mjúkt.  En það getur líka verið að Pálmi sé ekki alltaf með sömu utsetningu á laginu í spilaranum sínum. 

Jens Guð, 28.5.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband